Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segist vera ánægð með að úrskurður Gerðardóms í kjaradeilu Bandalags háskólamanna, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og íslenska ríkisins sé til styttri tíma. Samkvæmt úrskurðinum verður gildandi kjarasamningur framlengdur um tvö ár og gildir frá 31. mars 2015 til 31. ágúst árið 2017.
Lestu úrskurð Gerðardóms hér.
„Það er gott að hann sé til styttri tíma en lengri, hann er til rúmlega tveggja ára. Við höfðum gert okkur vonir um að hann yrði ekki settur til lengri tíma vegna þess að úrskurður Gerðardóms er lögþvingað úrræði þannig að við erum hæfilega ánægð með það,“ segir Þórunn.
Hún segist einnig ánægð með að í úrskurðinum séu tekin ákveðin skref í þá átt að meta menntun til launa. „Við fyrstu sýn eru það jákvæðar fréttir og skref í rétta átt. En svo eigum við bara eftir að rýna þetta rækilega. Þetta eru átján félög, átján launatöflur, þannig að það þarf að skoða þetta mjög vel áður en við segjum meira.“
„Þetta er skref í rétta átt,“ segir Ólafur Skúlason, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, um úrskurðinn. Um sé að ræða meiri launahækkanir en voru í kjarasamningum sem voru undirritaðir áður og efnislega er hann að sögn tiltölulega sáttur.

