Þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fjölgað um 28,7 prósent í júní á milli ára hefur heimsóknum frænda okkar frá Skandinavíu fækkað.
Heimsóknum frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi fækkaði verulega milli ára og Kínverjar voru fjölmennari en frændþjóðirnar hver fyrir sig, segir á vef Túrista.is
Á fyrri hluta ársins flugu 517 þúsund erlendir farþegar frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Aukningin frá sama tíma í fyrra nemur 28,7 prósentum en ferðamönnum frá Norðurlöndunum fjölgaði aðeins um 2,8 prósent.
Til samanburður var aukningin frá NorðuröAmeríku ríflega 40 prósent. Verulegur samdráttur varð hins vegar í komum ferðamanna frá Skandinavíu í júní síðastliðnum. Þá fækkaði sænskum ferðamönnum hér á landi um 16,7 prósent, Dönum um 13,6 prósent og Norðmönnum um 10,2 prósent. Samtals komu hingað 2.223 færri skandínavískir ferðamenn en á sama tíma í fyrra. Fjöldi Finna stóð í stað.
Þessi þróun á sér stað þó flugsamgöngur héðan til Norðurlandanna séu tíðari núna því samkvæmt talningu Túrista var boðið upp á 429 áætlunarferðir héðan til Norðurlandanna í júní síðastliðnum en þær voru 397 í júní 2014.
„Á sama tíma og ferðamönnum frá frændþjóðunum fækkar þá hefur orðið sprenging í komum Kínverja. Það sem af er ári hefur þeim fjölgað um 78,2 prósent og samtals hafa um 17 þúsund kínverskir ferðamenn heimsótt Ísland í ár. Í júní fjölgaði kínverskum ferðamönnum enn meira eða um 83,5 prósent, segir í umfjöllun Túrista.
