Bayern München hefur hug á að klófesta Sílemanninn Arturo Vidal að sögn þýska dagblaðsins Bild. Fimm ára samningur mun liggja á borðinu fyrir kappann.
Bild þarf að greiða um 35 milljónir evra fyrir kappann en honum er ætlað að fylla í skarð Bastian Schweinsteiger sem er nú farinn til Manchester United.
„Ég ætla ekki að leyna þeirri staðreynd að við höfum áhuga á honum,“ sagði Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern, í viðtali við þýska fjölmiðla. „En ég get ekki staðfest það sem kemur fram í blöðunum - að allt sé klappað og klárt. En við vonumst auðvitað til að leikmaðurinn komi til okkar.“
Vidal er á mála hjá Juventus og varð meistari með landsliði sínu í Suður-Ameríkukeppninni fyrr í sumar. Hann kom sér hins vegar í klandur fyrir ölvunarakstur í miðri keppni en fékk engu að síður áfram að spila með landsliði Síle.
Vidal þekkir vel til í Þýskalandi eftir að hafa spilað með Leverkusen frá 2007 til 2011, er hann gekk í raðir Juventus fyrir 12,5 milljónir evra. Á Ítalíu varð hann fjórum sinnum ítalskur meistari, bikarmeistari og komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Vidal var reyndar nálægt því að fara til Bayern árið 2011 en valdi fremur ítalska stórveldið.
Bayern býður Vidal fimm ára samning

Tengdar fréttir

Vidal sviptur ökuleyfi í tvö ár
Sílemaðurinn var handtekinn fyrir ölvunarakstur í miðri Suður-Ameríkukeppninni.

Síle Suður-Ameríkumeistari í fyrsta skipti
Síle er Suður-Ameríkumeistari í knattspyrnu eftir sigur á Argentínu í úrslitaleik. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.

Juventus ítalskur meistari
Juventus varð í dag ítalskur meistari eftir sigur 1-0 á Sampdoria, en þetta var 24. sigur Juventus í 34 leikjum á tímabilinu.

Stjörnuleikmaður Síle handtekinn í miðri Suður-Ameríkukeppni
Arturo Vidal, miðjumaður Juventus og Síle, átti ekki góðan dag í gær en hann endaði með því að þessi snjalli leikmaður var fluttur í burtu í lögreglubíl.

Vidal fær að spila áfram þrátt fyrir ölvunarakstur
Grét á blaðamannafundi þegar hann baðst afsökunar á því að hafa klessukeyrt Ferrari-bifreið sína.