Rútan Ferðamiðlunar stoppaði á plani við Skjöldólfsstaði, austur í Jökuldal, um kvöldmatarleytið í kvöld en bærinn stendur við þjóðveg 1.
Fararstjórinn ekki með nein svör
„Við vorum bara heima að horfa á sjónvarpið, horfum út á planið þar sem er bensínsjálfsali og sáum þá hvað var að gerast. Þá sá maður fólkið fara upp í og úr garðinum. Pabbi fór þá út og talaði við fararstjórann sem var íslensk kona. Pabbi var skiljanlega heldur óhress með þetta allt, eiginlega alveg brjálaður. Fararstjórinn var þá svakalega frek, ekki með nein svör og dónaleg á móti.“
Ingunn segir að þau hafi áður hringt í ferðaskrifstofur og beðist undan því að fá svona sendingar. „Viðbrögðin hafa verið misjöfn. Ég er ekki lengur með tölu á því hvaða ferðaskrifstofur þetta eru. Maður hringir kannski í eitthvað númer sem er gefið upp – stundum vísa menn hver á annan og enginn ber ábyrgð á neinu, stundum biðjast menn afsökunar í bak og fyrir. Núna náðum við í einhverja stúlku sem svaraði í símann hjá þessu fyrirtæki.
Þegar maður flettir þessum fyrirtækjum upp á netinu þá sér maður að þetta eru ekki mjög stöndug fyrirtæki. Þetta er bara einhver „basic“ heimasíða og svo farsímanúmer þannig að það er ekki alltaf mjög mikið á bakvið öll þessi ferðaþjónustufyrirtæki. Maður veit ekki endilega við hvern maður er að tala. Það eru allir í þessum ferðaþjónustubransa að reyna að græða,“ segir Ingunn.

Hún áætlar að þetta hafi verið milli tíu og fimmtán ferðamenn sem hafi farið upp í garðinn til að gera þarfir sínar. „Þeir eru bara sendir hingað. Þeim er sagt að fara hérna upp í garðinn. Það er bara þannig.“
Voru þau bæði að gera númer eitt og tvö?
„Ég hef ekki hugmynd um það. Ef ég á að segja alveg eins og er þá er ég ekki á leiðinni út í garðinn á næstunni. Mig langar það ekki. Þetta er svona trjágarður og það er ekki slegið á milli trjánna og svona. Það er hátt gras og ég er svo sannalega ekki að fara að vaða kúk hérna. Mér er í raun alveg sama hvort það er.
Það er okkar reynsla að ef fólk ætlar að pissa þá gerir það það hérna á hlaðinu. Það er ósjaldan sem fólk pissar hérna á hlaðinu fyrir framan hjá okkur – rífur niður um sig á bílastæðinu og pissar. Það er bara daglegt brauð. Þegar fólk er að fara svona upp í garð þá er er það ekki síður til að gera númer tvö. Mig langar ekki til að leita að því. Nákvæmlega ekki neitt.“
Önnur lögmál
Ingunn finnst þessi hegðun svo ótrúlega dónaleg. „Ég hugsa að ég yrði nú tekin föst ef ég kæmi til Reykjavíkur og færi inn í garð í Bústaðahverfinu og gyrti niður um mig. Ég hugsa að það yrði kallað á lögreglu. Af því að þetta er úti á landi þá er eins og það gildi allt önnur lögmál, enginn einkaréttur og svo framvegis.
Ég skil þetta heldur ekki. Ef ég væri í útlöndum þá færi ég ekki upp að einhverju íbúðarhúsi, leysti niður um mig og til að gera þarfir mínar. Bara aldrei!
Svo er maður niðri á bensínplaninu og í 200 metra fjarlægð er hótel, bændagisting, kaffihús, salerni. Þau horfa beint á skiltið en samt eru ferðamennirnir sendir upp í garð til okkar.“
Uppfært 11:30:
Rétt er taka fram að rútan er í eigu Hópferðabíla Akureyrar, en leigð ferðaskrifstofunni Ferðamiðlun. Framkoma ferðamannanna og fararstjóra er alls ekki á ábyrgð eða vegum Hópferðabíla Akureyrar.