Gunnar Nelson mætir Brandon Thatch í búrinu á MGM Grand-hótelinu í Las Vegas á laugardaginn eftir viku.
Barist verður um tvo heimsmeistaratitla sama kvöld og óhætt að kalla þetta stærsta UFC-kvöld sögunnar og því um leið mikilvægasta bardaga Gunnars á hans ferli.
Hann átti upphaflega að berjast við Englendinginn John Hathaway en hann er meiddur og var Brandon Thatch því færður upp goggunarröðina á sama kvöldi og berst nú við Gunnar.
Sjá einnig:Brandon Thatch mætir Gunnari í Las Vegas
„Ég hef leitað að veikleikum á honum út um allt,“ segir Gunnar í viðtali við Severe MMA-vefinn, en Thatch er mun betri í standandi bardaga heldur en í gólfglímu.
„Ég verð mjög ánægður ef bardaginn er í gólfið. Ef ég á að vera heiðarlegur er mér samt alveg sama þó við verðum meira standandi. Ég leita bara að opnunum. Það skiptir mig engu máli hvernig bardagi þetta verður.“
Conor McGregor, einn besti vinur Gunnars, berst um heimsmeistarabeltið í fjaðurvigt í aðalbardaga kvöldsins og verður því nóg af Írum í salnum.
Gunnar er hálfgerður fóstursonur Írlands, eða MMA-senunnar að minnsta kosti, en hann deilir þjálfara með Conor, Íranum John Kavanagh. Gunnar getur því búist við miklum stuðningi úr salnum.
„Þetta verður geggjað kvöld og ég get ekki beðið. Ég veit að það verður nóg af Írum þarna þar sem Conor er aðalmaður kvöldsins. Þetta verður sögulegt kvöld fyrir Írana þannig ég hlakka bara til,“ segir Gunnar Nelson.
UFC 189 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.
