Vísir hafði eftir Gunnari Hilmarssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni á höfuðborgarsvæðinu, fyrr í dag að Margera hefði mætt á lögreglustöð til að leggja fram kæru en nú hefur vefur Morgunblaðsins eftir Gunnari að tónlistarmaðurinn hefði ekki haft þolinmæði í að bíða eftir að geta lagt fram kæru og yfirgefið stöðina. Telst því málið úr höndum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem mun ekki aðhafast frekar.
Vísir greindi um liðna helgi frá átökunum á hátíðinni en þar var Margera laminn nokkrum sinnum í höfuðið meðal annars af rapparanum Gísla Pálma en tónlistarmaðurinn og einn af skipuleggjendum Secret Solstice, Egill Ólafur Thorarensen, var einnig í miðju átakanna.
Margera yfirgaf landið fyrr í dag og skildi eftir þessi skilaboð til umboðsmannsins Leon Hill sem Margera vill meina að sé í skuld við sig. Segir hann Leon bera alfarið ábyrgð á þeim átökum sem áttu sér stað. „Ég þekki enga af þessum íslensku röppurum. Þú lést þá berja mig og þú ert í djúpum skít.“