Ivan Rakitic, miðjumaður Barcelona, segir að mark hans í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gærkvöldi hafi verið það mikilvægasta á hans ferli.
Rakitic skoraði fyrsta mark Barcelona í 3-1 sigri á Juventus, en Alvaro Morata jafnaði metin. Luis Suarez og Neymar bættu svo við mörkum í síðari hálfleik fyrir Börsunga sem hömpuðu titlinum.
„Þetta var úrslitaleikur. Það er eðlilegt að við höfum þurft að leggja okkur fram og þeir komust inn í leikinn eftir þeir jöfnuðu," sagði Rakitic í leikslok.
„Þetta var ótrúlegur leikur. Mig langar að óska Juventus til hamingju. Þetta var líklega mitt mikilvægasta mark á ferlinum."
Liðsfélagar Rakitic grínuðust eftir leik að nú þyrfti Króatinn að raka af sér hárið vegna sigursins. Rakitic hélt nú ekki.
„Ég held ekki. Ég er með byssu inn í búningsherbergi," sagði Rakitic að lokum.
Tímabilið er lyginni líkast hjá Rakitic. Hann gekk í raðir Barcelona fyrir tímabilið, en hann vann þrennuna á sínu fyrsta tímabili með liðinu; Meistaradeildina, spænska bikarinn og spænsku deildina.
Rakitic: Markið í gær það mikilvægasta á mínum ferli
Anton Ingi Leifsson skrifar
