„Ég fer á Land Rover frá Mývatni á Kópasker,“ syngur Helgi Björnsson í vinsælu dægurlagi þessa dagana. Til að komast þá leið þarf að skrölta um holótta og niðurgrafna malarvegi. En það horfir nú til bóta, með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
„Við erum að bæta 1.800 milljónum í samgöngumál fyrir árið 2015 sem við erum að setja til brýnna vegaframkvæmda. Þar erum við að horfa til vega sem eru tilbúnir í útboð núna strax svo hægt sé að hefja framkvæmdir. Þar horfum við á samspil mikilvægra samgönguframkvæmda og ferðamála,“ segir Ólöf Nordal.

Þá verða Kjósarskarðsvegur og Uxahryggjavegur byggðir upp sem þýðir að nýjar tengingar fást milli Borgarfjarðar og Suðurlands sem ráðherra segir mjög mikilvægar til að flytja ferðamenn á milli svæða. Þá fara 500 milljónir króna aukalega í viðhald vega.
Ráðherrann kynnir einnig samgönguáætlun til næstu fjögurra ára. Þar ber hæst að hefjast á handa við Dýrafjarðargöng árið 2017. En getur ráðherrann þar með sagt Vestfirðingum að það verði farið í Dýrafjarðargöng á þarnæsta ári?
„Ég get að minnsta kosti sagt að það stendur í tillögu að samgönguáætlun, sem núna er að birtast þinginu. Síðan er það auðvitað þingsins að taka ákvarðanir. En forgangsröðunin er í þessa átt; að Dýrafjarðargöngin eru næst.“
