Handtökurnar fóru fram á hóteli í Zürich í Sviss þar sem ársþing FIFA fer fram á föstudaginn. Þar verður kosið til forseta sambandsins en hinn mjög svo umdeildi Sepp Blatter sækist eftir endurkjöri. Geir var nýkominn til Zürich, ásamt Klöru Bjartmarz, framkvæmdarstjóra KSÍ, þegar Guðjón náði tali af honum.
Þarf að grípa inn í þegar menn brjóta lög
„Evrópuþjóðirnar munu funda á morgun og við bíðum fundarins og væntum þess að fá frekari upplýsingar þá,“ sagði Geir sem bætti því við hann hefði ekki farið varhluta af þeirri háværu umræðu um spillingu innan FIFA.
„Alls ekki og þetta er mikið áfall. En auðvitað þarf að grípa inn í þegar menn brjóta lög. Ef þessir einstaklingar verða ákærðir og dæmdir er það mikið áfall fyrir knattspyrnuhreyfinguna,“ sagði Geir ennfremur en telur hann að Blatter hafi jafn víðtækan stuðning og hann hafði fyrir atburði næturinnar?
John Oliver kann betur en flestir að útskýra flókin mál á einfaldan og skemmtilegan hátt. Hér fer hann í saumana á FIFA og Sepp Blatter.
Evrópa er bara með 52 atkvæði
Aðspurður um stuðning við Blatter og hvort KSÍ muni fylgja skoðun UEFA hafði Geir þetta að segja: „Við höfum jafnan gert það. Það er röng túlkun að KSÍ hafi alltaf stutt Blatter, við studdum fyrst og fremst Lennart Johannsson í kjörinu gegn Blatter á sínum tíma (1998) en urðum undir þar.
„Síðan hefur hann verið endurkjörinn auðveldlega og hefur mikinn stuðning víðast hvar í heiminum. Evrópa hefur bara 52 atkvæði af 209,“ sagði Geir en Blatter var búinn að gefa það út að þetta yrði hans síðasta kjörtímabil.
Hann stóð ekki við þau orð og stefnir á að sitja á forsetastóli næstu árin. Það hefur skapað mikla úlfúð meðal Evrópuþjóða að sögn Geirs.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að ofan.