Það borgar sig stundum að breyta golfbúnaðinum en Ástralinn Steven Bowditch fann svo sannarlega fyrir því á fyrsta hring á Byron Nelson meistaramótinu.
Fyrir hringinn þyngdi Bowditch pútterinn sinn um 10 grömm sem virðist hafa verið góð hugmynd þar sem hann lék fyrsta hring á 62 höggum eða átta undir pari en hann setti mörg góð pútt niður.
Bandaríkjamaðurinn Jimmy Walker er í öðru sæti á sex höggum undir pari en hann fékk þrjá fugla á síðustu þremur holunum.
TPC Four Seasons völlurinn er í nágrenni Dallas í Texas þar sem Jordan Spieth ólst upp og var þessi næst besti kylfingur heims vel studdur af áhorfendum á fyrsta hring.
Hann kom inn á 69 höggum eða einu undir pari en hann fékk aðeins tvo fugla á öllum hringnum og þarf að spila betur ef hann ætlar að berjast um sigurinn fyrir framan sína heimamenn.
Annar hringur á Byron Nelson meistaramótinu verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá klukkan 20:00 í kvöld.
