Ólafur de Fleur leikstjóri hefur verið ráðinn til að leikstýra hryllingsmyndinni Hush, sem mun skarta ensku leikkonunni Sophie Cookson í aðalhlutverki. Sú er þekktust fyrir frammistöðu sína í grínmyndinni Kingsman: The Secret Service sem kom út í fyrra.
Bandaríski afþreyingarvefurinn Variety greinir frá þessu. Tökur á Hush, sem er byggð á samnefndri sögu eftir E. M. Blomqvist, munu hefjast í Skotlandi í haust. Myndin fjallar um systkini sem reka draugabanaþjónustu og svindla á fólki með því að þykjast reka drauga af heimili þeirra.
Ólafur er meðal annars þekktur fyrir að hafa leikstýrt myndunum Borgríki og Borgríki 2, sem til stendur að endurgera í Bandaríkjunum.
Ólafur de Fleur leikstýrir hryllingsmynd í Skotlandi
