„Ég fékk myndavél lánaða til að gera myndbandið og tuttugu mínútum síðar var það tilbúið,“ segir Katrín. „Þetta var bara ein taka og ekkert klippt. Ef vel er að gáð sjást einstaka villur, til að mynda gleymi ég að hreyfa varirnar í takt við textann á einum stað. Lendingin var að hafa þetta ófullkomið.“
Mount Theodore er listamannsnafns Julius Rothlaender. Katrín og Júlíus mættu í viðtal í Harmageddon í morgun til að kynna lagið. „Ég var að læra íslensku í Berlín og var að leita að konu til að rappa lagið á íslensku. Ég kynntist Reykjavíkurdætrum í gegnum íslenskunámið í Berlín eftir að kennarinn bað okkur um að greina textana þeirra. Ég hafði samband og þetta small bara,“ sagði Julius um aðdragandann.
Lagið fjallar um freistingu og löngun til að syndga, að vilja það sem ekki er hægt að fá og hvernig hlutir verða alltaf meira spennandi við það að vera utan seilingar. Í því eru vísanir í Vísur Vatnsenda-Rósu sem Rósa á að hafa samið til gifts manns.
Lagið má heyra hér að neðan.