Ekki er vitað hverrar þjóðar sjöundi hver ferðamaður er sem kemur hingað til lands. Alls var um 142 þúsund ferðamenn að ræða í fyrra. Ferðamálastofa hefur óskað eftir því að flugfarþegar verði flokkaðir eftir fleiri þjóðernum en Isavia telur að það myndi lengja biðtíma við öryggishliðin.
Þetta kemur fram á vefnum Túristi.
Allir sem komi til landsins um Keflavíkurflugvöll þurfa að sýna vegabréf við vopnaleitina í flugstöðinni og þannig á að vera hægt að flokka farþega eftir löndum. Samkvæmt Túrista er talningin gerð fyrir Ferðamálastofu sem heldur utan um opinberar upplýsingar um fjölda erlendra og íslenskra flugfarþega á Keflavíkurflugvelli en þeir sem aðeins millilenda eru ekki taldir með.
Í dag eru ferðamenn flokkaðir eftir sautján löndum en sjöundi hver ferðamaður lendir í flokknum „aðrir“.
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, segir Túrista að Ferðamálastofa hafi ítrekað óskað eftir því að Isavia fjölgi þjóðunum í talningunni. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að það myndi skapa flöskuháls við öryggisleitina og lengri raðir.
Þjóðerni 142 þúsund ferðamanna óþekkt
Samúel Karl Ólason skrifar
