Svíinn Henrik Stenson leiðir fyrir lokahringinn á Arnold Palmer Invitational sem fram fer á Bay Hill vellinum í Flórída en eftir þrjá hringi er hann á 16 höggum undir pari.
Stenson á tvö högg á Morgan Hoffman sem kemur í öðru sæti á 14 höggum undir pari en fjórir kylfingar deila þriðja sætinu á 13 höggum undir, meðal annars sigurvegarinn frá því í fyrra, Matt Every.
Rory McIlroy var í baráttu efstu manna framan af þriðja hring í gær en þrír skollar í röð á seinni níu holunum gerðu nánast út um möguleika hans til þess að sigra mótið. Hann situr jafn í 12. sæti á níu höggum undir pari.
Tilþrif gærdagsins átti Bandaríkjamaðurinn Daniel Berger en þrátt fyrir að sigla lygnan sjó á sjö höggum undir pari gerði hann sér lítið fyrir og fékk Albatross á sjöttu holu. Það gerði hann með því að setja niður 220 metra högg en þetta var í fyrsta sinn í sögu mótsins sem Albatross sést.
Lokahringuinn í kvöld ætti að verða spennandi en útsending frá honum hefst klukkan 16:30 á Golfstöðinni.
