Brautryðjandinn Birgit Kositzke kom til Íslands frá Þýskalandi fyrir átta árum en dvölin varð lengri en hún ætlaði. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 kvaðst Birgit hafa orðið svo hrifin af Íslandi að hún ákvað að setjast að til frambúðar.
Hún ákvað því að skapa sér eitthvert framtíðarstarf. Sjálf hafði hún alist upp við kanínukjöt og saknaði þess að fá það ekki á Íslandi.
„Það er bara gott kjöt. Svo fattaði ég með tímanum að það var ekki til,” sagði Birgit, kanínubóndi á Hvammstanga.

Hún byrjaði með fjórar kanínur árið 2011, og þær fjölguðu sér auðvitað, - eins og kanínur. Núna eru þær orðnar yfir 400 talsins. Fyrsta tilraunaslátrun var á Hvammstanga fyrir jól og þá fór hún með prufusendingu til Reykjavíkur til að kynna á matarhátíð í Hörpunni.
„Það gekk mjög vel. Í raun var allt uppselt á sunnudeginum eftir hádegi og eftirspurn var bara gríðarlega mikil.”

En hvernig er kanínukjöt á bragðið?
Birgit segir að sumum Íslendingum finnist það líkjast kalkún. „Ég er nú ekki sammála því. Í raun þarf fólk bara að prófa og smakka sjálft til að finna bragðið út,” svarar Birgit Kositzke.
Í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 næstkomandi þriðjudag verður nánar fjallað um kanínubúið og mannlíf á Hvammstanga.