Guardian komst yfir myndband þar sem stuðningsmenn Chelsea henda svörtum manni út úr lest á Richelieu-Drouot lestarstöðinni í miðborg Parísar.
Þar má heyra hóp fólks kalla: „Við erum kynþáttahatarar (We're racist), við erum kynþáttahatarar og þannig viljum við vera."
Aðeins seinna kallar annar maður: „Chelsea, Chelsea, Chelsea."
Breskur maður, Paul Nolan að nafni, tók atvikið upp á símann sinn og sendi Guardian.
Nolan sagði að maðurinn sem var hent út úr lestinni hafi verið í algjöru sjokki og að hann virtist ekki hafa áttað sig á því hverjir þetta voru sem hentu honum út.
„Þetta var menningaráfall. Ég heyrði nokkra Frakka segja: Ég trúi þessu ekki. Þetta er brjálæði," sagði Paul Nolan við Guardian.
Forráðamenn Chelsea hafa fordæmt hegðun stuðningsmannanna og sögðu jafnframt að ef viðkomandi eru ársmiðahafar eða meðlimir í félaginu þá mun Chelsea FC taka hart á brotum þeirra.