Fyrir framan 30.000 manns í Tele2-höllinni í Stokkhólmi var Gustafsson rotaður af Bandaríkjamanninum Anthony Johnson í fyrstu lotu.
Bardagann í heildinni í lýsingu Péturs Marinó Jónssonar má sjá í spilaranum hér að ofan.
Heimamenn ætluðu ekki að trúa eigin augum og vonbrigðin voru svo mikil fyrir Svíann að hann brast í grát fyrir framan sitt heimafólk. Það studdi sinn mann þó dyggilega og klappaði honum lof í lófa.

Johnson fær nú tækifæri til að berjast á móti Jon Jones um heimsmeistaratitilinn: „Ég vona þú hafir það gott, bróðir. Nú skulum við gera fólkið spennt fyrir titilbardaganum okkar,“ sagði Johnson í viðtali eftir bardagann.
Bandaríkjamaðurinn hamraði Svíann í gólfið með þungu hægri handar höggi og stökk á bak honum. Svíinn reyndi að verja sig og fékk veglegan tíma til þess frá dómaranum. Á endanum gat hann ekkert annað gert en stöðvað bardagann þegar tvær mínútur og 15 sekúndur voru eftir.

Svíinn ávarpaði sitt heimafólk og sænsku og þakkaði því fyrir komuna. Eðlilega uppskar hann mikið klapp frá samlöndum sínum sem munu ekki gefast upp á þessum gríðarlega hæfileikaríka bardagakappa.
Anthony Johnson er nú búinn að vinna níu bardaga í röð, þar af þrjá í röð í UFC. Árangur hans er 19 sigrar og fjögur töp en Gustafsson hefur nú unnið 16 sigra og tapað þrisvar sinnum.


