Ástæður sem gefnar eru upp eru þær að olíuleit þar þyki dýr, mikil óvissa ríki um árangur og innviðir séu takmarkaðir á Grænlandi. Talsmaður Statoil segir félagið vilja einbeita sér að svæðum þar sem líkur á árangri séu meiri, eins og Barentshafi.
Talsmaður Statoil hefur jafnframt skýrt frá því að félagið haldi leyfi sínu við Austur-Grænland, þeirri hlið sem snýr að Íslandi. Danska félagið Dong heldur einnig leyfi sínu til leitar við austurströnd Grænlands en þar eru jafnframt félög eins og Shell, BP, Chevron og ConocoPhilips. Þar er ekki komið að þeim tímapunkti að félögin þurfi að ákveða hvort þau halda áfram.

Ákvörðun fyrstnefndu félaganna þriggja þykir samt áfall fyrir olíudrauma Grænlendinga, en margir höfðu bundið vonir við að olíulindir gætu orðið grundvöllur sjálfstæðis Grænlands. Meðal viðbragða sem lesa má í athugasemdadálki grænlenska fréttamiðilsins Sermitsiaq eru þessi: „Drømmen om verdensherredømmet brast. Tilbage på dansk socialhjælp.“ Draumurinn um heimsyfirráð brast, aftur á danska sósíalhjálp, sagði þar.
Síðustu olíuboranir við strendur Grænlands fóru fram á árunum 2010 og 2011 á vegum Cairn Energy og kostuðu félagið um 140 milljarða króna. Þær reyndust árangurslausar. Sú olíuleit færði Grænlendingum hins vegar miklar tekjur, bara á árinu 2011 fékk grænlenski ríkiskassinn um átta milljarða króna í tekjur af olíuleitinni. Nú um áramótin lokaði Cairn skrifstofu sinni í Nuuk og hefur engin áform um að opna aftur.
