Fótbolti

Við lítum út eins og hálfvitar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Klopp var ekki upplitsdjarfur eftir leik.
Klopp var ekki upplitsdjarfur eftir leik. vísir/getty
Þó svo að Borussia Dortmund hafi unnið sinn riðil í Meistaradeild Evrópu og sé komið í sextán liða úrslit keppninnar gengur nákvæmlega ekkert upp hjá félaginu heima við.

Um helgina tapaði liðið 2-1 gegn Werder Bremen og Dortmund verður því í 17. og næstneðsta sæti deildarinnar yfir jólin sem er ótrúleg staðreynd.

Hið eina jákvæða sem þjálfari liðsins, Jürgen Klopp, gat tekið úr leiknum var sú staðreynd að nú er komið frí í deildinni til 31. janúar. Sá tími verður væntanlega vel nýttur til þess að rífa liðið upp á nýjan leik.

„Ekki meiri fótbolti árið 2014. Það eru bestu fréttir dagsins. Öll gagnrýni sem við höfum fengið er fullkomlega réttmæt. Við lítum út eins og hálfvitar á vellinum og það er engum nema okkur sjálfum að kenna,“ sagði Klopp bugaður eftir leikinn.

„Við getum núna undirbúið okkur í þrjár vikur og svo verður farið í að laga það sem þarf að laga. Það er svo sannarlega mikið sem við þurfum að vinna í.“

Dortmund spilar gegn Bayer Leverkusen 31. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×