„Í staðinn fyrir að vera skaðlausari og ljúfari valkostir en dæmigerðar hryllings- og dramamyndir eru teiknimyndir barna í raun gróðrarstíur morða og ofbeldis,“ rita vísindamennirnir Dr. Ian Colman og Dr. James Kirkbride í vísindaritið British Medical Journal. Samkvæmt rannsókn þeirra fyrirfinnst ekkert minna af dauða og eyðileggingu í kvikmyndum sem ætlaðar eru fyrir börn heldur en í kvikmyndum ætluðum fullorðnum.
Rannsakendur horfðu á þær 45 barna- og teiknimyndir sem voru hvað vinsælastar á milli 1937 og 2013. Þeir komust að því að í tveim þriðju barnamyndanna lést mikilvæg sögupersóna en aðeins helmingur þeirra lést í „fullorðins“-myndum.
Aðalpersónur í teiknimyndum voru meira en tvöfalt líklegri til að deyja og næstum þrisvar sinnum líklegri til að vera myrt heldur en í mynd fyrir fullorðna.
Foreldrar aðalpersóna voru meira en fimm sinnum líklegri til að deyja í teiknimyndum, eins og í Disney-myndinni vinsælu Frozen. Þá komust rannsakendur að því að foreldrar, óvinir og börn voru oft fyrstu persónurnar til að deyja í teiknimyndum.
Barnamyndirnar voru bornar saman við tvær vinsælustu myndirnar fyrir fullorðna sem komu út á sama ári og barnamyndirnar, svo sem spennutryllarnir Black Swan og What Lies Beneath. Í rannsókninni kemur fram að ofbeldismagnið í teiknimyndum hafi ekki breyst síðan Mjallhvít var gefin út árið 1937.
Ofbeldi í barnamyndum
