Fyrir Gaza er safnplata gefin út fyrir íbúa Gaza þar sem nítján listamenn og hljómsveitir koma saman í nafni mannréttinda og mannúðar. Má þar nefna GusGus, FM Belfast, Sóley, Cell 7, Mammút, Prins Póló og Mugison.
Allur ágóði af sölu plötunnar rennur til AISHA – Association for Women and Child Protection sem sinnir neyðarhjálp fyrir konur og barnafjölskyldur á Gaza-svæðinu. Samtökin standa einnig fyrir námskeiðum og fræðslustarfi til að fyrirbyggja heimilisofbeldi, stuðla að jafnrétti og styrkja stöðu kvenna á Gaza og annars staðar í hertekinni Palestínu.
Eva Einarsdóttir er upphafsmaður og umsjónarmaður útgáfunnar. Hún ferðaðist til Palestínu árið 2003 og starfaði sem sjálfboðaliði að æskulýðsstarfi hjá PMRS, Palestínsku læknahjálparnefndunum og Project Hope í Balata-flóttamannabúðunum við Nablus.
Árið 2004 átti hún frumkvæði að útgáfu safnplötunnar Frjáls Palestína. Nú tíu árum síðar, í kjölfar árásanna á Gaza í sumar, setur hún saman þessa safnplötu.
