Tónskáldið Ólafur Arnalds hlaut í gær sjónvarpsverðlaun BAFTA, Bresku kvikmynda- og sjónvarpsþáttaakademíunnar.
Ólafur sigraði í flokknum frumsamin tónlist í sjónvarpi, fyrir tónlistina í þáttunum Broadchurch sem sýndir voru á BBC og einnig á Stöð 2.
„Mér líður bara gríðarlega vel. Þetta er geggjað, maður er bara hálfsjokkeraður,“ sagði Ólafur himinlifandi, skömmu eftir að hafa veitt verðlaununum viðtöku í Lundúnum í gærkvöldi. „Þetta kom mér svo mikið á óvart, ég hélt aldrei að ég myndi fá þetta. Ég er búinn að vera í sjokki í klukkutíma. Búinn að vera í hringiðu af fólki að grípa í mann og viðtölum.“
Vinna stendur nú yfir að annarri þáttaröð sem og bandarískri útgáfu af þáttunum.
Aðrir sem voru tilnefndir í flokknum voru Martin Phipps fyrir þættina Peaky Blinders, Mark Bradshaw fyrir Top of the Lake og Paul Englishby fyrir Luther.
BAFTA heldur árlega hátíð og veitir verðlaun fyrir árangur í kvikmyndum, sjónvarpi, teiknimyndum og tölvuleikjum.
Maður er bara hálfsjokkeraður
