Justin er einn vinsælasti tónlistarmaður heims.Vísir/Getty
Tónlistarmaðurinn og verðandi Íslandsvinurinn Justin Timberlake er búinn að bæta við þrettán tónleikum í Norður-Ameríku á tónleikaferðalagi sínu 20/20 Experience World Tour. Nýju tónleikarnir eru í nóvember og desember og fara til dæmis fram í Portland og Atlanta.
Miðar fara í sölu þann 14. apríl en meðlimum í aðdáendaklúbb Justins, Tennessee Kids, gefst kostur á að kaupa miða í forsölu 8. apríl.
Mikil spenna ríkir hér á landi fyrir komu Justins en hann heldur tónleika í Kórnum þann 24. ágúst. Allir miðar á tónleikana seldust upp á svipstundu.
Kostnaðurinn við að fá Justin Timberlake til landsins er um 1,5 milljónir dollara eða 170 milljónir íslenskra króna en frá því er greint í Viðskiptablaðinu í dag.
Justin Timberlake kemur fram á tónleikum á Íslandi 24. ágúst næstkomandi. Tónleikarnir, sem haldnir verða í Kórnum í Kópavogi, eru liður í heimstónleikaferðalagi söngvarans.