Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði í sjónvarpsþættinum Mín skoðun á Stöð 2 að hún ætlaði að hætta á þingi að loknu þessu kjörtímabili.
Aðspurð segist hún vera þeirrar skoðunar og hefur lagt til í stefnuskrá að þingmenn séu eigi lengur en tvö kjörtímabil í senn á Alþingi. Þessu hafi hún lofað í kosningabaráttu sinni. „Ég lít á þingmennsku sem fyrst og fremst samfélagsþjónustu sem á að inna af hendi áður en maður verður of samdauna kerfinu. Það felst mikið frelsi í því að vera ekki með áhyggjur af því hvort maður fái aftur umboð. Þá sleppir maður því að detta inn í popúlisma og á auðveldara með að vera samkvæmur sjálfum sér,“ segir Birgitta.
Eftir að árunum átta lýkur á þinginu ætlar hún að halda áfram að vinna að málum er varða lög um fjölmiðla, upplýsinga- og tjáningafrelsi og friðhelgi einkalífs.
„Það er ekki neitt sérstaklega fjölskylduvænt að vera þingmaður. Því gladdi það yngri son minn mjög þegar við ákváðum í sameiningu að þetta yrði mitt síðasta kjörtímabil,“ segir hún en tekur fram að hún ætli að nýta þau þrjú ár sem hún á eftir á þingi vel í almannaþágu.

