Íslandi hefur formlega verið boðið að vera heiðursgestur á Eurosonic-tónlistarhátíðinni í Groningen í Hollandi á næsta ári en hátíðin fer fram um miðjan janúar ár hvert.
„Eurosonic er orðin að öflugustu kynningarhátíð Vestur-Evrópu um þessar mundir og má segja að þetta sé ekki ósvipað því þegar Ísland var heiðursgestur á bókmenntahátíðinni í Frankfurt árið 2011,“ útskýrir Sigtryggur.
Einhver mesti styrkur Eurosonic er ráðstefnan sem fram fer á daginn, hana sóttu í ár 3.275 fagmenn úr tónlistargeiranum, meðal annars fulltrúar 419 tónlistarhátíða, og á ráðstefnunni taka menn fundi og reyna að sjá eitthvað af þeim 150 pallborðsumræðum og kynningum sem í boði eru. „Svo eru skoðaðir tónleikar með ferskustu tónlistarmönnum Evrópulandanna á kvöldin,“ bætir Sigtryggur við.
Í ár voru Austurríkismenn heiðursgestir á Eurosonic og voru 38.700 gestir á hátíðinni frá 39 löndum að sjá 339 listamenn spila á 47 sviðum.
Ísland hefur fengið mikla athygli fyrir tónlist sína síðustu ár og er þess skemmst að minnast að milli áranna 2012 og 2013 varð nánast tvöföldun á útflutningi á tónlist í formi tónleikahalds, 718 tónleikar voru haldnir utan landsteinanna árið 2012 en tæplega 1.400 árið 2013.
Þess má geta að Austurríkismenn voru búnir að vera með beiðni inni hjá Eurosonic í fjögur ár um að vera „focusland“ en Íslandi er boðið þetta nokkuð óvænt.
„Er það mál allra þeirra sem tekið hafa þennan kaleik að viðskipti hafi aukist mjög áþreifanlega í kjölfar þess, og beri þess merki í auknum bókunum þeirra listamanna sem fram hafa komið á hátíðinni auk mikils vaxtar í sölu tónlistar frá landinu.“