Megan er dóttir milljarðamæringsins Larrys Ellison, framkvæmdastjóra Oracle. Samkvæmt tímaritinu Forbes eru auðævi föður hennar metin á 41 milljarða Bandaríkjadala sem gerir hann að þriðja ríkasta manni Ameríku. Mennirnir sem ná að skáka honum eru Warren Buffett, framkvæmdastjóri Berkshire Hathaway, og Bill Gates, stofnandi Microsoft.
Megan er því hluti af hópi ungra frumkvöðla vestan hafs sem eru með ansi djúpa vasa og er hún óhrædd við að taka mikla áhættu. Góð dæmi um það eru myndirnar Zero Dark Thirty og The Master sem stóru myndverin höfnuðu. Þessar tvær myndir gerðu það að verkum að Megan og fyrirtæki hennar, Annapurna Pictures, varð eitt það eftirsóttasta í kvikmyndabransanum.

Það eru ekki aðeins framleiðendur sem eru sólgnir í peninga Megan heldur vilja handritshöfundar og leikstjórar ólmir vinna með þessari kjarnakonu þar sem hún dembir sér í þau verkefni sem hún tekur sér fyrir hendur af fullum krafti.
Þá hefur Megan ákveðið að endurvekja eina vinsælustu bíóseríu í sögu Hollywood – The Terminator. Hún borgaði tuttugu milljónir Bandaríkjadala, rúma tvo milljarða króna, árið 2012 til að tryggja sér réttinn að myndum um Tortímandann í framtíðinni og að Arnold Schwarzenegger myndi leika hann eins og hann gerði áður.
Megan er afar annt um að vernda einkalíf sitt og gaf engin viðtöl þegar í ljós kom að myndir hennar hefðu hlotið sautján tilnefningar til Óskarsverðlaunanna. Það eina sem hún gerði var að tísta eftirfarandi: „17.“
17
— Megan Ellison (@meganeellison) January 16, 2014