Zola, sem er 48 ára, tekur við starfinu af hinum gamalreynda Zdenek Zeman sem var rekinn fyrr í vikunni, en Cagliari hefur gengið skelfilega á tímabilinu og situr í neðsta sæti ítölsku deildarinnar. Fyrsti leikur liðsins undir stjórn Zola verður gegn Palermo, 6. janúar.
Þetta er í fyrsta sinn sem Zola stýrir félagsliði utan Englands, en hann stýrði síðast liði Watford í B-deildinni. Hann var áður við stjórnvölinn hjá West Ham United á árunum 2008-2010.
Zola þekkir vel til hjá Cagliari en hann lauk leikmannaferlinum á Sardiníu. Zola spilaði með Cagliari á árunum 2003-2005 og skoraði 22 mörk í 74 deildarleikjum með liðinu.
Zola er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Chelsea, en hann lék með Lundúnaliðinu á árunum 1996-2003.
