Leandro Castan, varnarmaður ítalska liðsins Roma, þarf að fara í heilaskurðaðgerð til að laga vanda sem kom upp í leik með liðinu í haust.
Castan kvartaði undan svima eftir leik Roma gegn Empoli í september og kom í ljós að hann var með bólgur við heilann. Hann var þó ekki í lífshættu og var ákveðið að hann myndi fara í aðgerðina til að koma í veg fyrir að þetta tæki sig upp síðar.
Castan er 28 ára Brasilíumaður og leikurinn gegn Empoli er sá eini sem hann hefur tekið þátt í á tímabilinu. Hann á tvo leiki að baki með landsliði Brasilíu en hann gekk í raðir Roma frá Corinthians árið 2012.

