„Dreifiaðilinn okkar í Flórída nálgaðist Disney fyrir um einu og hálfu ári síðan,“ segir Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri ölgerðarinnar. „Þeim leist vel á og þeir völdu Einstök í fyrra sem eina jólabjórinn sinn í Hollywood Studios. Það verður aftur þannig í ár.“
Hollywood Studios er einn allra vinsælasti skemmtigarður veraldar og í fyrra heimsóttu hann rúmlega tíu milljónir manna. Guðjón segist ekki geta greint frá því hversu mikið var keypt af Doppelbock bjórnum í fyrra en ljóst er að salan í garðinum telur talsvert fyrir ölgerðina.

Einstök bjór hefur verið í mikilli sókn á þeim þremur árum sem liðin eru frá því að hann kom fyrst á markað. Guðjón segir það magn bjórs sem ölgerðin flytur út árlega hafa tvöfaldast á hverju ári og í enn meiri aukningu stefni. Hann segir það ekki öruggt að Doppelbock jólabjórinn verði áfram á boðstólum í Hollywood Studios á næsta ári, það verði bara að koma í ljós.