Tónlist

2015 verður árið hans Óla Geirs

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Nóg að gera hjá Óla Geir.
Nóg að gera hjá Óla Geir. mynd/jón óskar
„Þetta er fyrsta „remix“ sem ég gef út. Nú er ég loksins að byrja að gefa út mína eigin tónlist. Það er mikið á döfinni. Árið 2015 verður mjög stórt,“ segir plötusnúður Óli Geir. Hann er búinn að gefa út endurhljóðblandaða útgáfu af laginu Blame með Calvin Harris og John Newman og er lagið ókeypis á Soundcloud-síðu Óla Geirs.

„Ég vona að fólk kunni að meta að maður sé að gefa því heilt lag. Ég held að margir átti sig ekki  á því hvað það er mikil vinna að baki einu svona lagi. Stundum er það þannig að fólk ber ekki virðingu fyrir manni ef maður gefur tónlist en ég vona að fólk næli sér í þetta lag,“ bætir Óli Geir við. En af hverju valdi hann þetta lag til að endurhljóðblanda?

„Það eru ekki öll lög þarna úti sem maður hefur áhuga á að „remix“-a. Þetta er nýtt lag og vinsælt lag. Auk þess er þetta lag með einum af mínum uppáhaldstónlistarmönnum. Það var alveg í góðum dansbúningi fyrir en það er enginn búinn að setja það í svona harðari útgáfu.“

Óli Geir hefur verið að gefa út svokölluð ræktarmix á síðunni sinni að undanförnu og að hans sögn hafa hátt í tuttugu þúsund manns náð í mixin sem hafa verið ókeypis.



Plötusnúðurinn samdi nýverið við þýska útgáfufyrirtækið Bang It/Housesession sem gefur út lögin hans erlendis.

„Ég sendi frá mér mitt fyrsta lag í sumar sem heitir Flocka og það endaði á einhverjum 25 safndiskum á netinu. Útgáfufyrirtækið kemur í raun laginu í spilun og dreifir því á erlendar útvarpsstöðvar og plötusnúða. Ég geri þetta til að komast með annan fótinn út,“ segir Óli Geir.

„Í framtíðinni getur þetta skilað sér í stefgjöldum sem tónlistarmaðurinn fær en aðallega geri ég þetta til að koma nafninu mínu út um allt. Ég er ekki að eltast við stefgjöld. Ég er bara að reyna að hitta í mark. Ef að lag vekur athygli líta stærri útgáfufyrirtæki og plötusnúðar við þér. Þetta er ákveðinn stigi sem maður þarf að komast upp,“ bætir hann við. Hann segist vera tilbúinn með tíu til ellefu lög til viðbótar sem séu betri en Flocka og bíður spenntur eftir að geta sett þau í spilun.



Horfir spenntur til framtíðarinnar.
Varðandi næsta ár er margt í pípunum hjá plötusnúðinum.

„Þá byrjar allt mitt sem ég hef verið að undirbúa. Í gær var ég að klára nýtt lag með Frikka Dór sem kemur út annað hvort í nóvember eða bíður fram í janúar. Svo er ég að gera annað lag með Love Guru og enn annað lag með Önnu Hlín og fleiri flottum tónlistarmönnum á Íslandi. Ég bý til allt nema sönginn og þau semja ofan í laglínuna og syngja. Fagmennirnir í Stop Wait Go taka söngvarana síðan upp. Þegar maður er með þá í liði með sér og þessa glæsilegu, íslensku tónlistarmenn er fátt sem getur klikkað,“ segir Óli Geir sem hefur dreymt lengi um að gefa út sína eigin tónlist.

„Ég er búinn að sitja á því heillengi, í einhver ár, að gera einhverja tónlist. En maður er alltaf svo dómharður við sjálfan sig og feiminn. Þegar ég gaf út lagið í sumar sá ég að dyr opnuðust og ég ákvað að demba mér í þetta. Ég ætla að byrja hér á Íslandi því Íslendingar eru svo duglegir að standa með hvor öðrum. Ég vona að það verði svoleiðis í þetta sinn líka. Það góða við að vera lítil þjóð er að þegar menn standa saman hér þá fær maður meira sjálfstraust og er tilbúinn að reyna eitthvað meira á erlendri grundu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×