Nýr listi kom út í morgun og var Ísland í 28. sæti. Sigrarnir á Lettlandi og Hollandi fyrr í mánuðinum fleyttu liðinu upp um sex sæti frá síðasta lista og eru strákarnir okkar nú í fyrsta sinn í efsta Norðurlandaþjóðin á listanum.
„Þessi listi skiptir ekki neinu máli fyrr en í lok næsta sumars. Því ofar sem við verðum á listanum þá því meiri líkur á að við verðum í öðrum styrkleikaflokki,“ sagði Heimir.
Í sumar verður styrkleikalistinn notaður til að ákvarða niðurröðun liðanna í styrkleikaflokka fyrir undankeppni HM 2018. Það er í eina skiptið sem listinn skiptir máli að því tilliti því Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, notar eigin útreikninga til að ákvarða styrkleikaröðun fyrir undankeppni EM.

Miðað við listann sem kom út í morgun yrði Ísland næstsíðasta þjóðin í öðrum styrkleikaflokki og Heimir vonast til þess að halda þeirri stöðu fram á sumar. „Það virðist þó vera að það þurfi ansi mikið að gerast til að við förum niður,“ segir Heimir sem gleðst þó fyrst og fremst yfir góðu gengi liðsins á vellinum sjálfum.
„Það eru leikirnir sem maður gleðst yfir. Ekki endilega úrslitunum heldur frammistöðu liðsins í leikjunum,“ segir Heimir sem gegnir stöðu landsliðsþjálfara með Lars Lagerbäck eftir að hafa verið aðstoðarmaður Svíans í síðustu undankeppni.

Og auðvitað gleðst hann yfir góðri stöðu Íslands á listanum. „Það er gaman að geta sagt að við höfum aldrei farið hærra. En þetta er bara viðmið og segir ekkert til um hvort við vinnum næsta leik.“
Næsti leikur Íslands verður vináttulandsleikur gegn Belgíu ytra þann 12. nóvember. Fjórum dögum síðar leika strákarnir við Tékka á Plzen í undankeppni EM 2016.