Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands, sagði að það hafi verið markmiðið að vinna Lettland í kvöld með öllum tiltækum ráðum. Það tókst en strákarnir unnu sannfærandi 3-0 sigur.
„Ég er mjög ánægður með að hafa haldið hreinu og það er alltaf ljúft að halda hreinu þó svo að það hafi ekki verið mikið að gera hjá mér í þessum tveimur leikjum,“ sagði Hannes við Vísi eftir leikinn í kvöld en Ísland er með markatöluna 6-0 eftir fyrstu tvo leiki riðlsins.
Hannes fagnaði Ara Frey Skúlasyni mjög eftir að sá síðarnefndi bjargaði á línu í stöðunni 2-0. „Þetta var eina skiptið sem þeir þjörmuðu eitthvað að okkur og hann bjargaði liðinu þarna. Ég held að við hefðum lent í basli ef þeim hefði tekst að skora gegn okkur þá.“
Hann segir að Ísland hafi verið betra liðið í kvöld. „Þeirra leikaðferð var auðvitað hundleiðinleg en maður verður að bera virðingu fyrir því. Þetta eru hins vegar stórhættulegir leikir og manni líður ekki vel með að standa þarna aftast og horfa bara á lengst af. Maður veit aldrei hvað getur gerst þegar svona lið sækja allt í einu hratt fram.“
„Það var mikil fagmennska að klára leikinn 3-0 eins og þetta hefði getað þróast í kvöld.“
Hannes sagði að hugarfar leikmanna hafi verið afar gott í vikunni. „Við ætluðum okkur að vinna þennan leik með öllum tiltækum ráðum og það tókst.“
„Nú er gaman að mæta Hollandi. Við getum leyft okkur að njóta augnabliksins gegn Hollandi þó svo að við stefnum auðvitað að því að vinna þann leik. Það verður erfitt enda Holland með eitt besta landslið heims og frábæra einstaklinga í sínum röðum.“
„Við höfum ekkert spáð í þeim leik en nú hefst sú vinna og við förum að skoða hvernig við getum lagt Hollendingana að velli."
Hannes: Líður ekki vel í svona leikjum
Tengdar fréttir

Aron Einar: Við höldum okkur á jörðinni
Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði sagði að það hafi vissulega verið ljúft að skora sitt fyrsta mark fyrir Ísland.

Pahars: Ekkert gekk hjá Íslandi fyrir rauða spjaldið
Marian Pahars, landsliðsþjálfari Lettlands, vildi ekki afsaka slaka frammistöðu síns liðs en sagði ákvarðanir dómarans afdrifaríkar.

Gylfi: Vildi klára leikinn
Gylfi Þór Sigurðsson kom Íslandi á bragðið í 3-0 sigrinum í Riga í kvöld en hann varð þó fyrir meiðslum snemma leiks.

Heimir: Förum rólegir í Hollandsleikinn
Landsliðsþjálfarinn segir liðið heppið að hafa ekki misst menn í meiðsli í kvöld.

Ragnar: Svona lagað endar alltaf með marki
Varnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson segir að það hafi verið erfitt að eiga við vel skipulagðan varnarleik Lettlands.

Íslenska landsliðið á toppi riðilsins eftir 3-0 sigur í Lettlandi
Íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur aldrei unnið annan leik í undankeppni stórmóts eftir sigur í þeim fyrsta.