365 hefur áfram tryggt sér sýningarrétt að leikjum Meistaradeildar Evrópu og Evrópukeppni UEFA næstu fjögur árin.
Þetta var tilkynnt í dag en samningurinn gildir frá 2015 til 2018. Allt að átta leikir í Meistaradeild Evrópu verða sýndir í hverri viku og fjórir í Evrópudeildinni.
„Meistaradeildin hefur verið eitt af flaggskipum íþróttastöðva okkar undanfarin ár, enda eitt vinsælasta íþróttaefni í heiminum. Með þessum samningi enn eitt tímabilið erum við að festa okkur enn frekar í sessi meðal fremstu íþróttastöðva í heimi þegar kemur að framboði á íþróttaefni,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla.
Meistaradeildin hefur verið sýnd hjá 365 og forverum þess undanfarin 20 ár.
