Tímabilið hjá Stjörnunni hefur verið ævintýri líkast en Garðabæjarliðið er enn taplaust í Pepsi-deildinni - líkt og FH - og fór auk þess langt í forkeppni Evrópudeildarinnar. Karlalið Stjörnunnar er þó ekki eina lið félagsins sem hefur átt gott ár.
Karlalið Stjörnunnar í handbolta komst upp í Olís-deildina og kvennaliðið tapaði í oddaleik í úrslitaviðureign gegn Val. Þá komst karlaliðið í körfubolta í undanúrslit Domino's deildarinnar og kvennaliðið var nálægt því að komast upp um deild.
En flaggskip Stjörnunnar er kvennalið félagsins í fótbolta. Stjörnustúlkur unnu tvöfalt í ár og hafa unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og tvo bikartitla á síðustu fjórum árum.

Vísir var á staðnum og spurði markadrottninguna Hörpu Þorsteinsdóttur og Glódísi Perlu Viggósdóttur, sem voru báðar í liði ársins, hvernig þeim litist á úrslitaleik FH og Stjörnunnar á laugardaginn.
„Þetta er ótrúlega spennandi. Ég er rosalega spennt fyrir þeirra hönd,“ sagði Glódís og Harpa tók í sama streng.
„Þetta er mjög spennandi. Mómentið er kannski með Stjörnuliðinu, en hefðin er með FH. Ég held að þetta verði hörkuleikur og hvernig sem fer þá verður liðið sem vinnur verðugur meistari.“
„Það yrði alveg frábært ef þeir yrðu Íslandsmeistarar og við gætum fagnað öll saman. Það hefur verið frábær uppbygging hjá félaginu og Stjarnan er orðið stórveldi,“ bætti Glódís við.