Búist er við stormi suðvestast á landinu með morgninum og hvassviðri í öðrum landshlutum, en að mesta vindinn lægi þegar líður á morguninn. Veðurstofan varar við snörpum hviðum undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og á Reykjanesbraut eitthvað fram á tíunda tímann.
Áfram er spáð rigningu eða skúrum og segir Veðurstofan að búast megi við vatnavöxtum í ám á Suður- og Suðausturlandi fram á föstudag. Nú þegar er mikið eða mjög mikið rennsli í ám víða um landið, en þær hafa þó ekki flætt yfir bakka sína svo vitað sé.
