Strákarnir koma allir úr Mjölni og höfðu æft gríðarlega vel fyrir MMA bardagana sína. Fyrstur á svið af Íslendingunum var Birgir Örn Tómasson en hann mætti heimamanninum Bobby Pallett. Eftir jafna fyrstu lotu þar sem þeir skiptust á höggum náði Pallett fellu í 2. lotu. Birgir náði að standa upp og vankaði Pallett áður en lotan var á enda. Í 3. lotu át Birgir hausspark og svaraði hann því með því að steinrota Pallett í 3. lotu.
Bardaginn var frábær en Birgir Örn hefur nú sigrað báða MMA bardaga sína með rothöggi. Fyrr í dag fengu Birgir og andstæðingur hans bónus fyrir besta bardaga kvöldsins.
Næstur á svið var Diego Björn Valencia. Andstæðingur hans var pólskur glímumaður og náði hann fellu í 1. lotu. Diego tókst að snúa stöðunni við og endaði fyrstu lotuna ofan á. Í 2. lotu náði Diego sjálfur fellu og hélt toppstöðu um tíma. Þriðja lotan var jöfn og endaði bardaginn í dómaraákvörðun. Hinn pólski Amadeusz Arczewski sigraði naumlega eftir dómaraákvörðun, 29-28, í jöfnum bardaga. Þessi bardagi fer beint í reynslubankann hjá Diego og mun hann án efa koma tvíefldur til baka.
Lokabardagi kvöldsins var titilbardagi milli Bjarka Þórs Pálssonar og Anthony O’Connor. Fyrir bardagann var O’Connor ósigraður í sjö bardögum og því verðugur andstæðingur. Bjarki náði fellu í fyrstu lotu og sigraði fyrstu lotuna. Í næstu lotu skaut O’Connor í fellu en Bjarki náði taki utan um hálsinn og læsti þéttri „guillotine“ hengingu. O’Connor neyddist því til að gefast upp í 2. lotu. Bjarki Þór tryggði sér þar með léttvigtarbelti Shinobi MMA.
Frábært kvöld að baki hjá Mjölnismönnunum og mega þeir vel við una eftir bardaga gærkvöldsins.
Vísir og MMA Fréttir starfa saman í umfjöllun um MMA. Ekki gleyma að setja "like" við Facebook síðu þeirra hér.

