Búið er að hugsa út í minnstu smáatriði, sem skipta gríðarlegu máli í upplifun manns af leiknum. En þrátt fyrir þetta er leikurinn talsvert frá því að vera fullkominn. Leikurinn á enn langt í land þegar það kemur að þeirri spilun sem ekki gerist inni á vellinum; þegar spilarar ætla sér að byggja upp stjórveldi í framkvæmdastjórahamnum (e. Carreer mode).

Það má með sanni segja að enginn FIFA-leikur hafi verið jafn nálægt því að fanga raunveruleikann og FIFA 15. Reyndar má yfirleitt segja það um hverja uppfærslu af FIFA. En stökkið er einstaklega stórt í ár. Framleiðundum hefur tekist fullkomlega að fanga stemninguna á mörgum af völlum Evrópu. Hvort sem maður er á Selhurst Park eða Nou Camp.
Áhorfendur eru algjörlega með á nótunum og láta í sér heyra ef heimaliðið skorar en þegja ef gestirnir skora. Þekktir stuðningssöngvar margra liða eru kyrjaðir þegar vel gengur.
Meira að segja vallarþulurinn les tilkynningar, eins og hversu margir eru á vellinum og að leikmenn aðalliðsins munu gefa eiginhandarráritanir næsta þriðjudag. Hver leikur er orðinn líkari beinni útsendingu, þar sem dómarar og frægir leikmenn á varamannabekknum eru kynntir leiks auk þeirra tuttugu og tveggja sem eru inni á vellinum.
Grafíkin á útsendingunni breytist svo eftir því hvaða deild spilað er í og endurspeglar þá grafík sem notuð er í sjónvarpsútsendingum í raun og veru. Meira að segja línuverðirnir fá að vera með, þegar þeir flagga rangstöðu fer myndavélin á andlit þeirra og má sjá þá brosa til leikmanna sem mótmæla.
Frábær spilun
Undirritaður hefur spilað alla FIFA-leiki sem hafa komið út og getur fullyrt að enginn leikur í seríunni hefur látið eins vel að stjórn. Rutter og félgar virðast hafa endanlega fundið jafnvægið í spiluninni. Vanir FIFA-spilarar skilja undirritaðan líklega þegar hann segir að líklega hafi sendingarnar aldrei verið eins sanngjarnar, þær fara þangað sem þær eiga að fara, en í undanförnum leikjum hefur maður stundum haft á tilfinningunni að sumar sendingar væru með sjálfstæðan vilja og færu þangað sem þær vildu.
Frá því að fyrstu FIFA-leikirnir komu út hafa framleiðendur keppst við að minnka vægi snöggra leikmanna. Í gegnum tíðina hefur hraðinn verið lang mikilvægastur þegar það kemur að styrkleika leikmenna. Nú virðist sem framleiðendum hafi tekist þetta, snöggir menn ná ekki alltaf fullum hraða, eins og gengur og gerist í alvöru. Tímasetningar og tækni skipta meira máli en áður og hjálpar það við að gera spilunina frábæra.

Spilunin í leiknum er frábær og svo virðist sem framleiðendum hafi tekist að láta hraða leikmenn skipta minna máli en áður, sem ætti að vera gleðiefni fyrir þá sem vilja hafa leikinn sem raunverulegastan.
Meðlætið ekkert uppfært
Stærsti gallinn á þessari FIFA-máltíð er meðlætið. Spilarar geta, eins og alltaf, verið tiltekinn leikmaður og reynt að vinna sig upp hjá einhverju liði, eða verið framkvæmdastjórar. Spilun þessa þátta hefur ekkert verið uppfærð, fyrir utan kannski að PlayStation 4 ræður betur við þunga valmynd leiksins heldur en PlayStation 3 gerði.
Rutter og félagar ættu að horfa til NBA 2k leikjanna, en þar hefur mönnum tekist að byggja upp frábæran söguþráð í íþróttaleikjum. Í FIFA virðist lítið hugsað út í þessa þætti og er leikurinn því rýrari fyrir vikið.
Þetta hefur FIFA þó bætt upp með frábærri netspilun í gegnum tíðina. Líklegt verður að teljast að sú verði áfram raunin þegar kemur að FIFA 15, en ekki er hægt að segja um það að svo stöddu, því leikurinn kemur út í kvöld og þá fyrst fæst reynsla á hvernig netþjónarnir bregðast við álaginu.
Fifa hefur þó í gegnum tíðina staðið öðrum íþróttaleikjum framar í netspilun og bjóða framleiðundur upp á svipaða möguleika í spilun á netinu og áður.
Mikilvæg uppfærsla
Útgáfa FIFA-leikjanna er orðin að árlegum hátíðisdegi fyrir stóran hóp tölvuleikjaspilara. Frá því að leikurinn náði yfirhöndinni á knattspyrnuleikjamarkaðinum – eftir harða baráttu við Pro Evolution Soccer - hefur hann haldið áfram að vaxa. FIFA 15 er mikilvæg uppfærsla í sögulegu samhengi. Langt er síðan að spilun FIFA-leiks hefur verið bætt jafn mikið.
Líklega þyrfti að fara aftur til ársins 2009 þegar FIFA 10 kom út, eða jafnvel aftur til útgáfu FIFA 98, til að sjá svipað stökk í spilun.
