Skjálftinn var af stærðinni 5.1 sem Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna hefur lýst sem „miðlungsstórum“.
„Augljóst er að jarðskjálftinn olli aurskriðunni, en ákveðinn veikleiki var þó til staðar í fjallinu eftir ólöglega námastarfsemi og grjótnámur sem hagnýttar voru með ótilhlýðlegum hætti,“ sagði forseti Ekvador, Rafael Correa, í samtali við þarlenda fjölmiðla.
Borgarstjóri Quito tilkynnti fjölmiðlamönnum að einn þeirra sem lét lífið í skjálftanum hafi verið fjögurra ára strákur sem varð undir hrísgrjónasekkjum.
Aðalflugvelli borgarinnar var lokað í kjölfar skjálftans til að meta hugsanlegar skemmdir á innviðum vallarins en hann hefur nú verið opnaður aftur. Skjálftinn fannst vel í höfuðborginni og þustu skrifstofustarfsmenn út á götur borgarinnar þegar þeir urðu hans varir. Bílaumferð var lengi í lamasessi eftir titringinn.
Alls búa um 1.6 milljón manns í Quinto en skjálftin átti upptök sín á um 7.7 kílómetra dýpi, rúma 22 kílómetra norðaustur af höfuðborginni.
Jarðskjálftar eru tíðir í Ekvador en landið er í hinum svokallað Eldhring sem umlykur Kyrrahafsflekann. Eldhringurinn er í raun hálfhringur, 40.000 km langur, þar sem 90 prósent af öllum jarðskjálftum heims og 81% af stærstu jarðskjálftum heims eiga sér stað.
