Sleggjukastkeppni Bikarkeppni FRÍ getur ekki farið fram í Laugadal eins og restin af bikarkeppni Frjálsíþróttasambandsins og hefur hún verið flutt til Hafnarfjarðar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Jónasi Egilssyni, formanni FRÍ.
Eina kastbúrið á höfuðborgarsvæðinu sem stenst öryggiskröfur er á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði. Keppnin hefst þar í fyrramálið klukkan 10.30.
Rökin fyrir þessari ákvörðun FRÍ eru að ekki er kastbúr á aðalleikvanginum. Þá stenst kastbúrið á æfingasvæðinu í Laugardal ekki öryggiskröfur. Það er hvorki nægilega þröngt né hátt til að fyllsta öryggis sé gætt.
Þegar Evrópukeppni landsliða var haldin hér árið 2011, ákvað eftirlitsdómari Frjálsíþróttasambands Evrópu, að búrið á æfingasvæðinu í Laugardal uppfyllti ekki alþjóðlegar kröfur. Við hliðina á á kastsvæðinu er tjaldsvæði með fjölda gesta og með öryggi þeirra í huga var þessi ákvörðun tekin.
Ekki hægt að keppa í sleggjukasti í Laugardalnum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
