Leikjavísir

Mætti alltof snemma í vinnuna útaf tímarugli í Candy Crush

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Haraldur Geir fékk aukalíf í Candy Crush.
Haraldur Geir fékk aukalíf í Candy Crush.
Haraldur Geir Þorsteinsson mætti tveimur tímum of snemma í vinnuna í morgun því hann breytti klukkunni á símanum sínum til þess að fá aukalíf í leiknum Candy Crush. Hann átti að mæta til vinnu klukkan níu en áttaði sig á mistökunum átta mínútur í sjö þegar hann var að keyra Sæbrautina.

Þessi aðferð; að fá aukalíf í Candy Crush með því að skipta um tímabelti í símanum er þekkt aðferð á meðal þeirra sem eru vanir að spila leikinn.

Haraldur skrifaði um málið á Facebook og hafði blaðamaður samband við hann til að glöggva sig betur á málinu.

„Umferðin var óvenju þægileg í morgun. Ég var eiginlega á „Cruise Control“ þegar ég vaknaði. Ég man meira að segja eftir að hafa litið á klukkuna í bílnum þegar ég settist undir stýrið. En áttaði mig ekki á þessu einhvernveginn,“ segir Haraldur og hlær. Hann heldur áfram að lýsa aðstæðum í morgun:

„Eins og ég segi, ég áttaði mig á þessu þegar ég var á Sæbrautinni og þá var ekkert að gera annað en að halda aftur heim. Sem betur fer var verið að endursýna leik Manchester United og LA Galaxy frá því í nótt. Það var bara fínt að horfa á leikinn aftur.“

En Haraldur, sem er búsettur í Árbænum og starfar í Íslandsbanka, sá þó einn galla við þetta. „Já, það var náttúrulega leiðinlegt fyrir frúna að vera vakin tvisvar,“ segir hann kátur.

Hann segist hafa lært lexíu á þessu öllu. „Já, núna fer maður bara að lesa bækur fyrir svefninn, ekki spila Candy Crush."

Haraldur veitti Vísi leyfi til að birta stöðufærsluna sem hefur vakið góð viðbrögð á meðal vina hans á Facebook:

Dagurinn byrjaði stórfenglega.

Allt hófst að vísu mjög eðlilega - vaknaði við vekjaraklukkuna en var þó óvenju þreyttur.

Settist stuttu seinna upp í bíl og leit á klukkuna þar,"6:52" - hugsaði með mér "ahh, verð aðeins of seinn", sem mögulega hefði verið raunin ef ég væri í vinnu á Ólafsvík.

Þegar ég er að keyra Sæbrautina þá fer ég að velta fyrir mér hvernig standi á því að það séu svona fáir bílar á ferli, nánast engin umferð. Lít aftur á klukkuna, "7:00". Í þetta skiptið voru nokkur tannhjól í toppstykkinu farin að snúast og ég átta mig á því hvað hefur gerst.

Kvöldið áður hafði undrabarnið hann Haraldur verið að stytta sér stundir í því mikla kraftaverki sem Candy Crush er. Á einum tímapunkti höfðu lífin fjarað út og því var gripið til viðeigandi ráðstafana - klukkan í símanum stillt 2 klukkutíma fram í tímann og þar af leiðandi sköpuðust 4 ný líf. Þessu hefði ég betur sleppt.

Nú er ég mættur aftur heim og mun gera aðra tilraun til þess að mæta í vinnuna eftir klukkutíma. Á meðan stytti ég mér stundir með því að horfa á endurupptöku af viðureign Manchester United og LA Galaxy síðan fyrr í nótt.

Morgunstund gefur gull í mund.

Lexía dagsins: byrja að lesa bækur fyrir svefnin






Fleiri fréttir

Sjá meira


×