Hafdís Sigurðardóttir, UFA, varði Íslandsmeistaratitil sinn í 200 metra hlaupi í dag á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum sem fram fer á Kaplakrikavelli í Hafnafirði.
Hafdís kom í mark á tímanum 24,29 sekúndum, en í öðru sæti varð ÍR-ingurinn HrafnhildEirHermóðsdóttir sem hljóp á 24,41 sekúndum. Sveinbjörg Zophoníasdóttir fékk bronsið.
Þetta er annað gullið hjá Hafdísi í dag, en hún vann einnig þrístökkið með stökki upp á 12,32 metra. Thelma Lind Kristjánsdóttir úr ÍR varð önnur með stökk upp á 11,32 metra.
Hafdís vann fern gullverðlaun í gær og hefur því unnið sex gullverðlaun á mótinu, eða í öllum þeim greinum sem hún hefur keppt í til þessa á mótinu.
