Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu innanríkisráðherra, hefur ákveðið að fara í dómsmál við fjölmiðilinn DV í kjölfar fréttar um að hún hafi verið sú sem lak minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos til fjölmiðla.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún sendi fjölmiðlum rétt í þessu. Í yfirlýsingunni segir hún svo alvarleg ósannindi koma fram í frétt blaðsins að hún geti ekki annað en brugðist við á þennan hátt.
„Lýtur það að umræddri umfjöllun blaðsins, en einnig að öðrum og ótal ósönnum fréttum DV um þetta mál, þar sem blaðið hefur ítrekað kosið að fella dóma eða
búa til atburðarrás sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.“
Hún segist ekki munu tjá sig frekar um málið á meðan rannsókn stendur yfir. „Það er von mín að henni ljúki brátt svo umræðan geti farið að snúast um staðreyndir fremur en órökstuddar dylgjur.“
