Blaðamanni fréttamiðilsins mbl.is verður ekki gert að gefa upp heimildarmann sinn í lekamálinu svokallaða. Þetta staðfesti Hæstiréttur á mánudaginn en samskonar niðurstaða fékkst í málinu í héraði.
Fréttin sem um ræðir birtist þann 20. nóvember síðastliðinn og byggir á minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu um mál tiltekins hælisleitanda. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess að blaðamanninum yrði auk þess gert að greina frá því með hvaða hætti mbl.is hefði komist yfir minnisblaðið.
Sakargiftir í málinu voru ekki taldar nægilega alvarlegar til þess að hægt væri að víkja frá heimildarvernd laga um meðferð sakamála. Jafnvel þó upplýsingarnar gætu ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamáls gegn starfsmanni ráðuneytisins. Dómurinn tók fram að upplýsingarnar hefðu átt erindi við almenning auk þess sem mál umrædds hælisleitanda hefði mikið verið rætt á opinberum vettvangi.
