„Er ráðherrann, eða pólitískir aðstoðarmenn ráðherrans, starfsmaður B?“ sagði Árni Páll og sagði Hönnu Birnu bera pólitíska ábyrgð gagnvart Alþingi að svara þessari fyrirspurn skýrt og greinilega.
Í dómi Hæstaréttar sem féll á mánudag hefur lögregla rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytisins, sem kallaður er starfsmaður B, hafi lekið minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos í fjölmiðla.

Lítið var um svör þegar innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, steig í pontu og sagðist hún ekki vita hvernig málið væri tilkomið. Því gæti hún ekki upplýst þingið um málið. Þá hvatti hún Valgerði til að kynna sér málið betur.
„Nú hlær þingmaðurinn. Það getur verið að henni finnist þetta fyndið en rannsókn málsins er ekki lokið,“ sagði Hanna Birna og sagði að starfsmenn ráðuneytisins í stöðugum samskiptum við fjölmiðla.

Minnisblaðið sem um ræðir var tekið saman af lögfræðingi í ráðuneytinu 19. nóvember 2013, en fréttir um málið birtust að morgni dags 20. nóvember.
Minnisblaðið var tekið saman að beiðni skrifstofustjóra vegna mótmæla sem halda átti fyrir utan ráðuneytið í kjölfar umfjöllunar um afgreiðslu þess á máli hælisleitandans Tony Omos. En vísa átti honum úr landi. Minnisblaðið var vistað á opnu drifi innanríkisráðuneytisins en þeir sem höfðu vitneskju um það og hvað á því stóð voru skrifstofustjóri, lögfræðingurinn sem tók það saman, ráðuneytisstjóri, ráðherra, tveir aðstoðarmenn auk tveggja lögfræðinga sem lásu það yfir. Rannsókn lögreglu benti til þess að ólíklegt væri að það hefði verið sent frá ráðuneytinu með tölvupósti.
Í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu segir að persónuleg samtöl einstakra starfsmanna ráðuneytisins séu sett í sérkennilegt samhengi. Þar segir að stór hluti af daglegu starfi starfsmanna ráðuneytisins séu samskipti við fjölmiðla. Þá segir jafnframt að hvorki ráðherra né aðrir starfsmenn geti ekki tjáð sig um efnisatriði málsins fyrr en rannsókn málsins er lokið.