Innlent

Foreldrar hvattir til að sækja börn í skólann

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Búist er við suðaustan stormi á landinu í dag sem fyrst mun gera vart um sig SV-til um og eftir hádegi og verður að hámarki á því svæði á milli klukkan þrjú og fimm í dag. Síðar í dag mun snúa í suðvestur og þá fylgir úrkoma sem víða mun ná upp á fjallvegi. Þar sem snjór og ís er fyrir, verður flughált við slíkar aðstæður.

Veðrinu veldur djúp lægð sem fer á mikill ferð vestur fyrir landið.

Þá má reikna með 30 til 40 m/s á utanverður Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli eftir hádegi í dag. Á norðanverðu Snæfellsnesi er reiknað með allt að 40 til 50 m/s hviðum frá klukkan þrjú og fram á kvöld.

Í tilkynningu frá VÍS segir að búast megi við miklum sviptivindum meðal annars við hærri byggingar. Fólk er hvatt til að fara varlega og þá sérstaklega þar sem hálka er fyrir.

„Vindurinn getur auðveldlega náð yfirhöndinni við þessar aðstæður og fellt fólk. Forráðamenn skólabarna eru hvattir til að sækja börn sín, láta þau ekki vera ein á ferðinni á meðan versti stormurinn gengur yfir og fylgja börnum sem þurfa á æfingar eftir skóla,“ segir í tilkynningunni.

Vísir mun fylgjast grannt með óveðrinu í dag. Við biðjum lesendur um að senda okkur ábendingar og myndir á netfangið ritstjorn@visir.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×