Joe Ledley, miðjumaður enska úrvalsdeildarliðsins Crystal Palace og velska landsliðsins í knattspyrnu, verður ekki með Wales á morgun í vináttulandsleiknum gegn Íslandi á Cardiff-vellinum klukkan 19.45.
Ledley varð fyrir meiðslum á mjöðm í jafnteflisleik Palace gegn Swansea um síðustu helgi og dró sig því úr hópnum. „Joe Ledley snýr aftur til Palace,“ staðfesti Chris Coleman, landsliðsþjálfari Wales, í dag.
Hann er annar leikmaðurinn sem dregur sig úr hópnum en áður hafði Simon Church, leikmaður B-deildarliðs Charlton, hætt við þáttöku í leiknum vegna meiðsla.
Walesverjar eru þunnskipaðir á miðjunni en AaronRamsey, leikmaður Arsenal, og DavidVaughan, leikmaður Nottingham Forest, voru ekki valdir í upphaflega hópinn vegna meiðsla.
AshleyWilliams, fyrirliði Wales, hefur aftur á móti staðfest að hann er klár í slaginn en hann veiktist fyrir helgi og gat ekki verið með liði sínu Swansea í leiknum gegn Crystal Palace.
„Mér líður betur núna. Ég veit ekki hvað var að mér en nokkrir í Swansea-liðinu veiktust. Mér leið ekki vel um helgina en ég hef verið betri undanfarna daga,“ sagði Ashley Williams.
