Greiningarfyrirtækið Gartner gerði undir lok síðasta árs ráð fyrir að stærð tölvuleikjamarkaðarins, þar sem horft er til tölvuleikja af öllu tagi og á hvers kyns tækjum, næmi árið 2013 tæplega 93,3 milljörðum Bandaríkjadala.
Upphæðin samsvarar rúmum 10.576 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið gerir í áætlun sinni ráð fyrir vexti upp á tæp 18,3 prósent á milli 2012 og 2013.
Tölvuleikir á fartækjum (snjallsímum, spjaldtölvum og viðlíka tækjum) eru svo sagðir sá geiri þar sem vöxtur er hvað hraðastur í leikjaiðnaði.
Fyrirtækið spáir svo áframhaldandi vexti þannig að markaðurinn fari í 101,6 milljarða dala á þessu ári (vaxi um 8,9 prósent í 11.521 milljarð króna) og vaxi svo um önnur 9,3 prósent milli 2014 og 2015.
"Tölvuleikir á netinu og í PC-tölvum verða vinsælir áfram en þeim geira eru þó skorður settar í stærð. Gartner býst við að hefðbundnum PC-tölvum verði ekki skipt út fyrir nýjar þegar kemur að endurnýjun hjá heimilum, heldur verði spjaldtölvur fremur fyrir valinu," segir í tilkynningu Gartner.
Þetta leiði til þess að leikjatölvur og leikir fyrir fartæki nái afgerandi forystu á "hefðbundna" tölvuleiki fyrir einkatölvur.
Samkvæmt gögnum Superdata Research, sem gefur út margvíslega tölfræði fyrir leikjaiðnaðinn, námu tekjur af stafrænum leikjum á Vesturlöndum 21,8 milljörðum dala á síðasta ári og jukust um 12 prósent á milli ára.
Í krónum eru tekjurnar tæpir 2.472 milljarðar króna. Tölvuleikjasala í Bandaríkjunum einum hafi numið 18 milljónum dala (2.041 milljarði króna), en þar af hafi 65,6 prósent farið fram á netinu með stafrænni afhendingu.

Superdata Research spáir líka hnignun sértækra leikjatölva og bendir á að í fyrra hafi 51 prósent leikið sér í einkatölvum, 30 prósent í leikjatölvum, 14 prósent í fartækjum og fimm prósent í smærri leikjatölvum (GameBoy og þess háttar).
Í nýrri spá alþjóðlega greiningarfyrirtækisins IDC er því spáð að tekjur af tölvuleikjum fyrir einkatölvur (PC og Mac) haldi áfram að vaxa í heiminum og fari yfir 24 milljarða dala (yfir 2.721 milljarð króna) árið 2017.
Þar ráði miklu aukning í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu. Spár fjárfestingarbankans Digi-Capital, þar sem horft er til tölvuleikjamarkaðar í heild, eru svo enn bjartsýnni.
Þar er gert ráð fyrir að leikir á netinu og í fartæki nái yfirhöndinni með 60 prósenta hlutdeild árið 2017 og að tekjur af stafrænum leikjum fari um leið yfir 100 milljarða dala.
Eftir nokkru er að slægjast í þessari þróun því í krónum talið er kakan þá orðin tæplega 11.340 milljarðar króna að stærð.
