Enski boltinn

Pellegrini: Bara eitt lið í Manchester á þessu tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City.
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City. Vísir/Getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, var kokhraustur á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Barcelona í Meistaradeildinni í kvöld.

Pellegrini var spurður út í stöðuna á Manchester-liðunum, City er á lífi í öllum keppnum en United er á allt öðrum stað en fólk er vant.

„Ef við skoðum þetta tímabil þá er bara eitt lið í Manchester-borg. Það er samt ekki hægt að gleyma því sem United hefur gert í gegnum tíðina," sagði Pellegrini.

„Við ætlum að vaxa með því að vinna marga titla, ekki bara heima fyrir heldur einnig alþjóðlega titla," sagði Pellegrini.

Framundan er risaleikur á móti spænsku meisturunum í Barcelona í kvöld.

„Lionel Messi er besti leikmaður heims en Barcelona er ekki bara Messi. Þú getur dekkað Messi stíft og þá munu aðrir leikmenn þeirra klára leikinn," sagði Pellegrini.

„Þetta hefur verið gott tímabil hingað til og nú verðum við bara að klára það af sama krafti. Eitt af markmiðum okkar er að ná langt í Meistaradeildinni vitandi það að við erum að fara að mæta einu mikilvægasta knattspyrnufélagi heims," sagði Pellegrini.

Leikur Manchetser City og Barcelona hefst klukkan 19.45 í kvöld og er í beinni á Stöð 2 Sport. Klukkan 19.10 hefst upphitun Hjartar Hjartarsonar fyrir leiki kvöldsins en þá mætast einnig Bayer Leverkusen og Paris Saint Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×