Fótbolti

Ribery og Benzema gætu þurft að sitja inni í þrjú ár

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ribery (til vinstri) og Benzema í landsleik með Frökkum.
Ribery (til vinstri) og Benzema í landsleik með Frökkum. Vísir/Getty
Réttarhöld yfir frönsku knattspyrnumönnum Karim Benzema og Franck Ribery hefjast í París í Frakklandi í dag. BBC greinir frá.

Landsliðsmönnunum er gefið að sök að hafa keypt þjónustu vændiskonu undir átján ára aldri. Benzema neitar fullkomlega sök en Ribery neitar að hafa vitað að konan, Zahia Dehar, hafi verið sautján ára.

Báðir eiga yfir höfði sér allt að þrjú ár í fangelsi og fimm milljóna króna sekt verði þeir fundnir sekir. Lögfræðingar kappanna sögðust ekki eiga von á því að leikmennirnir yrðu viðstaddir setningu réttarhaldanna.

Fólk í Frakklandi verður lögráða við 15 ára aldur en óheimilt er að kaupa sér þjónustu vændiskvenna yngri en átján ára. Dehar hefur sagt opinberlega að hún hafi logið til um aldur sinn í báðum tilfellum. Ribery á að hafa sofið hjá henni þegar hún var 16 ára en Dehar var 17 ára.

Ribery viðurkennir að hafa sofið hjá Dehar árið 2009. Þá var henni flogið til München, þar sem Ribery iðkar íþrótt sína, en hún var 26 ára „afmælisgjöf“ til franska kantmannsins. Ribery segist ekki hafa vitað að Dehar væri ekki orðin átján ára.

Benzema er sakaður um að hafa keypt sér þjónustu Dehar á hóteli í París. Hann neitar því að hafa sofið hjá Dehar.

Dehar, sem er 21 árs í dag, er orðin að stjörnu í heimalandinu í kjölfar skandalsins. Hún hannar nú undirföt en hefur vitnað um að hafa þegið greiðslur fyrir að sofa hjá báðum leikmönnunum. Hún viðurkennir að hafa logið til um aldur sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×