Playstation 4 leikjatölvan fer í sölu í kvöld, en Skífan og Gamestöðin verða með sérstaka kvöldopnun í tilefni útgáfunnar leikjatölvunnar hér á landi.
Sverrir Bergmann, tölvuleikjaspekingur og dagskrárgerðarmaður, mælir með því að fólk skelli sér á tölvuna sem allra fyrst. „Það eru góðar líkur á þetta seljist upp mjög fljótlega, þannig að þeir sem vilja ekki bíða eftir tölvu ættu að skella sér í kvöld.“
Sverrir hefur prófað þennan nýja grip, sem kom á markað í Bandaríkjunum á síðasta ári. „Ég hef verið að spila NBA 2k14, Assasins Creed og Call of Duty svo eitthvað sé nefnt. Þetta er tryllt tæki,“ útskýrir Sverrir.
Playstation 4 tölvan hefur selst í yfir fjórum milljónum eintaka. Hún seldist upp fljótlega í Bandaríkjunum eftir að hún kom út.
